Um verkefnið

Þann 9. ágúst 2010 gaf ráðherra mennta- og menningarmála út stefnu um samstarf opinberra háskóla. Stefnan byggist á samráði við rektora opinberu háskólanna fjögurra. Í stefnunni felst að stjórnvöld vilja standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra og efna til stóraukins samstarfs, með hugsanlega sameiningu í huga.

Markmið stefnunnar er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Við mótun stefnunnar var meðal annars tekið mið af skýrslu erlendra sérfræðinga sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðneytið veturinn 2008-2009.

Smelltu hér til að skoða stefnu ráðherra um opinbera háskóla frá 9. ágúst 2010.

 Myndin hér að ofan var tekin á fundi verkefnisstjórnar 25. nóvember 2010. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Elín Díanna Gunnarsdóttir,  Stefán B. Sigurðsson, Kristín Ingólfsdóttir, Skúli Skúlason, Ágúst Sigurðsson, Ásta Bjarnadóttir og Guðmundur R. Jónsson.

Myndin hér að ofan var tekin á fundi verkefnisstjórnar 25. nóvember 2010. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Elín Díanna Gunnarsdóttir,  Stefán B. Sigurðsson, Kristín Ingólfsdóttir, Skúli Skúlason, Ágúst Sigurðsson, Ásta Bjarnadóttir og Guðmundur R. Jónsson.  

Verkefnisstjórn var skipuð fyrir verkefnið með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðherra dags.12. ágúst 2010. Í verkefnisstjórninni sitja Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, formaður, Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, Elín Díanna Gunnarsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Hólaskóla - Háskólans á Hólum, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor Háskóla Íslands og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri Háskóla Íslands.  

Hlutverk verkefnisstjórnar skv. erindisbréfinu er að framfylgja stefnu stjórnvalda um opinbera háskóla hvað varðar samstarf þeirra og huganlega sameiningu. Ennfremur að semja verk- og tímaáætlun sem fjallar um hvernig hægt sé að gera samstarf skólanna sem nánast og hrinda henni í framkvæmd. Samkvæmt erindisbréfinu skal miðað við að í september 2012 verði markmið um stofnun háskólanetsins komin að fullu í framkvæmd.

Verkefnisstjóri samstafsverkefnisins er Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands.

Fyrstu vinnuhóparnir sem stofnaðir voru vegna verkefnisins skiluðu álitum sínum í lok nóvember 2010. Á fundi verkefnisstjórnar 20. desember var samþykkt að vinna áfram í anda þeirra tillagna.

Verkefnisáætlun til áranna 2011 og 2012 (.pdf) var skilað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þann 23. desember 2010.

Þann 9. maí 2011 var skrifað undir rammasamning um samstarf í stoðþjónustu, og tvo viðauka, annars vegar um sameiginlega hugbúnaðarþróun og upplýsingakerfi og hins vegar um sameiginlega þjónustu við akademískt mat.

Í desember 2011 var skrifað undir samning um gagnkvæmt aðgengi nemenda við alla fjóra háskólana að námskeiðum.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is