Samstarf á sviði stoðþjónustu

Samningur Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla-Háskólans á Hólum um samstarf í stoðþjónustu.

Mánudaginn 9. maí 2011 undirrituðu rektorar opinberu háskólanna fjögurra, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla-Háskólans á Hólum rammasamning um sameiginlega stoðþjónustu á ákveðnum sviðum, að viðstaddri Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Um leið var skrifað undir tvo viðauka um tiltekin svið stoðþjónustu sem unnin verða sameiginlega skv. rammasamningnum. Fyrsti viðaukinn snýst um að skólarnir taki upp árið 2012 sameiginlegt alhliða upplýsingakerfi fyrir nemendaskráningu, gagnavinnslu og kennslusamskipti. Seinni viðaukinn snýst um sameiginlega stoðþjónustu í tengslum við akademískt mat, en slíkt mat hefur áhrif varðandi ráðningar, framgang og launabreytingar. Samstarf samkvæmt seinni viðaukanum verður að mestu innleitt á árinu 2011.

Samstarf Háskólans á Akureyri og Hólaskóla-Háskólans á Hólum um bókhalds- og bókasafnsþjónustu.

Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum hófu samstarf um bókhaldsvinnu á miðju ári 2010. Samstarfið er til komið m.a. vegna breytinga í starfsmannahaldi hjá Hólaskóla. Starfsfólk HA annast færslu bókhalds í bókhaldskerfi ríkisins í samræmi við árituð fylgiskjöl. Jafnframt hafa HA og Hólaskóli með sér samstarf á sviði bókasafnsþjónustu. Bókasafnsfræðingar HA veita nemendum og starfsfólki Hólaskóla bókasafnsþjónustu, annast bókaskráningar, samskipti við landskerfi bókasafna, millisafnalán og sjá um notendafræðslu.

Samstarf um rekstur menntabrúar og fjarfundabúnaðar.

Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, í samvinnu við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni, hafa frá árinu 2003 rekið sameiginlega svokallaða "menntabrú" sem er tengibúnaður fyrir fjarkennslu og fjarfundi. Undir merkjum samstarfs opinberu háskólanna er nú verið að auka við og endurnýja þennan búnað, til að auðvelda samskipti milli skólanna.

Samstarf í starfsmannamálum.

Háskólarnir fjórir hafa í gegnum tíðina átt með sér samstarf og haft samráð á sviði starfsmannamála. Sem dæmi má nefna að HÍ og HA hafa frá árinu 1995 haft með sér samning um skiptingu kennsluskyldu kennara, þannig að kennari við einn skóla getur uppfyllt kennsluskyldu sína við annan skóla. Samskonar ákvæði er í samstarfssamningi HÍ og LBHÍ frá 2008. Þá hafa skólarnir að miklu leyti fylgst að við kjarasamningagerð og ýmsar reglur í starfsmannamálum og nokkur dæmi eru um sameiginlega starfsmenn sem skipta tíma sínum milli tveggja háskóla.

Samstarf um útgáfumál.

Háskólinn á Akureyri og Háskólaútgáfan, sem rekin er innan Háskóla Íslands, hafa frá árinu 1996 haft með sér samstarfssamning, sem tryggir fræðimönnum og stofnunum HA sama aðgang að útgáfuþjónustu og er í boði innan HÍ.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is