Samningur um gagnkvæman aðgang nemenda

Frá og með janúar 2012 geta nemendur opinberu háskólanna fjögurra skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga sem gestanemandi tekur með þessum hætti.

Þetta er megininntak samnings um gagnkvæman aðgang nemenda sem undirritaður var af forsvarsmönnum háskólanna í Þjóðmenningarhúsinu 5. desember 2011. Aðilar að samningnum eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli - háskólinn á Hólum.

Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði samninginn einnig þar sem ráðuneytið hefur skuldbundið sig til að endurskoða reglur um fjárframlög til háskóla til að stuðla að samstarfi háskóla og aukinni samnýtingu námskeiða.

Háskólarnir fjórir munu hvetja nemendur til að nýta sér þennan valkost og námsnefndir munu skilgreina námskeið sem þær mæla með við aðra skóla.

Stefnt er að því að háskólarnir geti nýtt þennan samning til að hagræða í námsframboði sínu með því að að sameina námskeið þvert á skóla og samkenna þau með hjálp fjarkennslutækni.

Einnig geta einstakir nemendur byggt á samningnum til að fá aðgang að námskeiðum við aðra háskóla, en slíkt getur gagnast nemendum til að flýta fyrir sér í námi og/eða til að fjölga valkostum sínum um valnámskeið og fleira. Nemendur þurfa þó að leita til síns heimaskóla áður en skráning í námskeið fer fram, til að tryggja að þau fáist metin til viðkomandi prófgráðu.

Samningur þessi mun leiða af sér hagræðingu, bætta nýtingu á mannauði og kennsluaðstöðu skólanna og síðast en ekki síst aukinn fjölbreytileika í valkostum fyrir nemendur.

Smellið hér til að skoða bækling um gestanám og aðgang nemenda á milli skóla.

Smellið hér til að skoða samninginn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is