Vinnuhópar - hugmyndavinna haustið 2010

Á fundi sínum 10. september ákvað verkefnisstjórnin að stofna fjóra vinnuhópa, sem skyldu skoða afmarkaða þætti í starfsemi skólanna, og koma með tillögur um samstarfsfleti og samþættingarmöguleika. Hóparnir skiluðu allir tillögum sínum fyrir lok nóvember 2010. Verkefnisstjórn fjallaði um tillögurnar í desemer 2010 og var samþykkt 20. desember að vinna áfram á grundvelli þessara tillagna.

Lýsingu á verkefnum vinnuhópanna eins og þeim var lýst í upphafi má sjá hér undir, ásamt tenglum á viðeigandi skjöl.

 Gæðakerfi vegna kennslu og nemenda:

Verkefnið er að kortleggja gæðakerfi skólanna hvað varðar gæði kennslunnar og kröfur til nemenda. Hópurinn skoði ferla, reglur og mælikvarða á þessu sviði, þ.m.t. viðmið við inntöku nemenda, ferli fyrir kennslumat og umbótastarf, reglur um stofnun nýrra námsbrauta, aðkomu nemenda að gæðastarfi og fleira. Gera tillögur um hvaða hluta þessa gæðakerfis eigi að sameina eða samræma, og skilgreina kosti þess og galla. Smellið hér til að sjá tillögu vinnuhópsins. Smellið hér til að sjá vinnuskjal verkefnisstjórnar. 

Gæðakerfi vegna akademískra starfsmanna og rannsókna:

Verkefnið er að kortleggja gæðakerfi skólanna á sviði rannsókna og akademískra starfsmanna. Hópurinn skoði ferla, reglur og mælikvarða á þessu sviði, þ.m.t. ráðningarferli akademískra starfsmanna, árlegt stigamat og framgangskerfi. Skoða þátt kjarasamninga og stofnanasamninga í þessum þáttum. Gera tillögur um hvaða hluta þessa gæðakerfis eigi að sameina eða samræma, og skilgreina kosti þess og galla. Sameiginlegt skjal verkefnisstjórnar og vinnuhóps má sjá hér. 

Stoðþjónusta og stjórnsýsla:

Verkefnið er að kortleggja alla stoðþjónustu skólanna, greina hvar styrkleikar og veikleikar  liggja og skilgreina hvaða stoðþjónusta er nærþjónusta og hvaða stoðþjónusta gæti farið fram fjær nemendum og starfsmönnum. Gera tillögur um hvaða hluta stoðþjónustu skólanna mætti sameina eða samræma, og skilgreina kosti þess og galla. Sameiginlegt skjal vinnuhóps og verkefnisstjórnar má sjá hér. 

Upplýsingakerfi:

Verkefnið er að kortleggja upplýsingakerfi skólanna, þ.e. umsóknakerfi, nemendabókhaldskerfi, kennslukerfi (vefir námskeiða), fjarnámsbúnað, vefkerfi og fleira. Gera tillögur um hvaða hluta þessara kerfa mætti sameina eða samræma, og skilgreina kosti og galla þess að samræma eða sameina þessi kerfi, enn fremur að áætla kostnað við það. Sameiginlegt skjal vinnuhóps og verkefnisstjórnar má sjá hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is