Samstarf á sviði náms og námsframboðs

Gestanám: Samningur um gagnkvæman aðgang nemenda.

Í desember 2011 var undirritaður samningur um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við opinberu háskólana fjóra. Samkvæmt samningnum geta nemendur opinberu háskólanna fjögurra skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga sem gestanemandi tekur með þessum hætti. Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar um samninginn.

Samkennsla vatnalíffræði og ferskvatnsvistfræði við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Haustið 2011 var gerð tilraun með samkennslu í námskeiðum á sviði vatnalíffræði og ferskvatnsvistfræði. Kennslan var skipulögð þannig að kennslustundir voru á sama tíma, en kennslan fór fram aðra hvora viku við hvorn skóla. Nemendur fengu þannig beina kennslu aðra hvora viku á hvorum stað, en kennslu í gegnum netið (á Moodle) hina vikuna, auk þess sem nemendur komu saman á fyrsta kennsludegi og í verklegum æfingum. Í verklegum æfingum, sem fólust í rannsóknum á vatnasviði Andakílsár, með kennurum frá báðum skólum, var unnt að bjóða meiri breidd en ella hefði verið. Nemendur hafa lýst ánægju sinni með tilhögun þessarar samkennslu. Umsjónarmenn þessa samstarfs eru Gísli Már Gíslason (HÍ) og Jón S. Ólafsson (LBHÍ).

Samstarf Háskóla Íslands og Hólaskóla-Háskólans á Hólum um BS nám í sjávar- og vatnalíffræði.

Í boði er sameiginleg BS gráða (180 ECTS) þar sem fyrstu tvö árin fara fram við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands en þriðja árið við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla-Háskólans á Hólum. Nemendur innritast í sameiginlegt nám og sér Háskóli Íslands um skráningu og umsýslu nemenda, þó nemendur greiði skrásetningargjöld við þann skóla sem þeir stunda námið hverju sinni og sá skóli fjármagnar kennslu þeirra. Einkunnir við báða skólana reiknast inn í vegna meðaleinkunn og nemendur fá tvö prófskírteini við útskrift. Umsjónarmenn þessa náms eru Sigurður S. Snorrason (HÍ) og Bjarni K. Kristjánsson (HH). Sjá nánar á vef Háskóla Íslands. Sjá nánar á vef Hólaskóla-Háskólans á Hólum.

Samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla-Háskólans á Hólum um BS nám í hestafræði. 

Í boði er sameiginleg BS gráða þar sem grunn­fög raun­greina og sér­fög bú­vís­inda ásamt rekstr­argreinum eru kennd á Hvann­eyri, en nám­skeið í reið­mennsku og flest­um sér­hæfð­um hesta­fög­um fara fram á Hól­um. Nemendur innritast í sameiginlegt nám og sér Landbúnaðarháskóli Íslands um skráningu og umsýslu nemenda. Nemendur greiða skrásetningargjöld við þann skóla sem þeir stunda námið hverju sinni og sá skóli fjármagnar kennslu þeirra. Einkunnir við báða skólana reiknast inn í meðaleinkunn og nemendur fá eitt prófskírteini undirritað af rektorum beggja skólanna.  Umsjónarmenn þessa náms eru Emma Eyþórsdóttir (LbhÍ) og Víkingur Gunnarsson (HH). Sjá nánar á vef Landbúnaðarháskóla Íslands. Sjá nánar á vef Hólaskóla-Háskólans á Hólum.

Samstarf Háskólans á Akureyri og Hólaskóla-Háskólans á Hólum um kennslu í náttúru- og auðlindafræðum.

Frá hausti 2011 verður í boði sameiginleg tveggja ára diplóma gráða í náttúru- og auðlindafræðum á BS stigi. Nemendur sem ljúka gráðunni geta lokið BS námi með þriðja árs sérhæfingu við Háskólann á Akureyri (sjávarútvegsfræði, líftækni), Háskólann á Hólum (fiskeldi) eða með sérsniðinni námsáætlun um BS próf í náttúru- og auðlindafræðum. Nemendur innritast í sameiginlegt nám og sér Háskólinn á Akureyri um skráningu og umsýslu nemenda. Nemendur greiða skrásetningargjöld við þann skóla sem þeir stunda námið hverju sinni og sá skóli fjármagnar kennslu þeirra. Einkunnir við báða skólana reiknast inn í meðaleinkunn og þeir fá í hendur tvö sambærileg prófskírteini. Umsjónarmenn þessa náms eru Hjörleifur Einarsson (HA) og Bjarni K. Kristjánsson (HH). Sjá nánar á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

Samstarf um orkuskólann RES.

Á árunum 2008-2011 störfuðu Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri saman á vettvangi orkuskólans RES, en háskólarnir tveir voru faglegir bakhjarlar skólans. Markmið skólans var að bjóða alþjóðlegt meistaranám á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og útskrifuðust 114 nemendur frá skólanum áður en hann hætti störfum snemma árs 2011.

Samstarf um nemendaskipti.

Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa frá árinu 1996 haft samstarf um nemendaskipti og var sá samningur endurnýjaður árið 2003. Innan ramma samstarfsins geta nemendur tekið einstök námskeið við hinn skólann, upp að ákveðnu hámarki eininga á ári, gegn því að greiða aðeins um 10% af skrásetningargjaldi. Svipuð ákvæði eru í samstarfssamningi HÍ og LBHÍ frá 2008.

Unnið er að því að gera heildarsamning um gagnkvæman aðgang nemenda allra háskólanna fjögurra að námskeiðum við hina skólana.

 NORDNATUR

Samstarf Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og nokkurra norrænna háskóla um nám í náttúru- og auðlindafræðum. Tengiliðir Anna Guðrún Þórhallsdóttir (LBHÍ) og Hreiðar Þór Valtýsson (HA). 

Sjávarútvegskóli Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP)

Umsjónaraðili sjávarútvegsskólans er Hafrannsóknarstofnunin og meðal samstarfsaðila eru Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is