Hvata- og þróunarstyrkir í samstarfi opinberu háskólanna

Verkefnisstjórn um samstarf opinberu háskólanna hefur veturinn 2011-2012 í tvígang auglýst eftir umsóknum um hvata- og þróunarstyrki á sviði náms og kennslu í samstarfi opinberu háskólanna.

Síðasti umsóknafrestur var 1. mars 2012.

Markmið: Markmið styrkjanna er að hvetja deildir háskólanna til að hleypa af stokkunum samstarfsverkefnum á sviði náms og kennslu. Slík verkefni geta leitt af sér aukin gæði náms, fjölbreyttari valkosti fyrir nemendur, um leið og markmiðum um hagræðingu er náð.

Hverjir geta sótt um? Ábyrgðarmaður umsóknar skal vera fastur starfsmaður við einhvern af opinberu háskólunum fjórum. Skilyrði fyrir því að styrkur sé veittur er að tveir eða fleiri opinberir háskólar séu að hefja samstarf á sviði náms eða kennslu. Aukaaðilar að styrkumsókn geta verið stofnanir, háskólar eða fyrirtæki sem ekki teljast til opinberu háskólanna. Forsetar viðkomandi deilda eða fræðasviða, eða eftir atvikum rektorar, skulu samþykkja umsókn áður en hún er send. Í umsókn skal tilgreina ábyrga starfsmenn við hvern og einn aðila að umsókn.

Nánar um verkefnin: Dæmi um möguleg verkefni sem geta hlotið styrk eru eftirfarandi: (a)  þróunarverkefni þar sem endurskoða þarf námsskrár með tilliti til þess að auka samkennslumöguleika; (b) tímabundið framlag vegna tekjutaps háskóladeilda sem fella niður námskeið (aðlögunarkostnaður); (c) þróunarvinna við mótun nýrra sameiginlegra námsgráða (joint degree). Þessi listi er þó ekki tæmandi.

Tímabil: Vorið 2012 var auglýst eftir umsóknum vegna verkefna sem unnin verða á árinu 2012.  Afrakstur verkefnisins skal liggja fyrir eigi síðar en í 1. janúar 2013, og skal þá skilað stuttri skýrslu til verkefnisstjórnar samstarfsins. Lokagreiðsla (1/3 af styrkupphæð) er greidd eftir að skýrslu er skilað.

Styrkupphæðir: Upphæð styrkja getur verið breytileg, og í umsókn skal gera ítarlega grein fyrir kostnaði. Meðalupphæð styrkja haustið 2011 var um 2 m.kr. (hæsti styrkur í úthlutun 6 m.kr. og sá lægsti um 400 þús.kr.).

Umsóknafrestur: Umsóknafrestur að vori 2012 var 1. mars 2012.

Skil á umsókn: Umsóknum er skilað rafrænt á sérstöku umsóknareyðublaði á netfangið gia@hi.is.

Mat á umsóknum: Verkefnisstjórn um samstarf opinberu háskólanna leggur mat á umsóknirnar. Lagt er mat á umsóknir út frá eftirfarandi viðmiðum:(a) Er um að ræða nýtt eða endurnýjað kennslusamstarf með þátttöku a.m.k. tveggja opinberra háskóla?(b) Hefur verkefnið jákvæð áhrif á gæði náms og/eða valmöguleika nemenda? (c) Gefur verkefnið háskólunum möguleika á hagræðingu? (d) Felur verkefnið í sér nýmæli í kennslu? (e) Eru markmið verkefnisins skýr og eru líkur á að árangur náist?

Framhald verkefnisins: Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýjan umsóknafrest fyrir hvata- og þróunarstyrki.

Smellið hér til að sjá upplýsingar um úthlutunina í desember 2011.

Smellið hér til að sjá upplýsingar um úthlutunina í mars 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is