Samstarf og námsframboð kynnt á Háskóladeginum

Kynningarmynd frá Háskóla ÍslandsOpinberu háskólarnir fjórir, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Hólaskóli-Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands, kynna samstarf sitt og sameiginlegt námsframboð í Háskólabíói á Háskóladeginum sem fram fer laugardaginn 18. febrúar kl. 12-16.

Háskólarnir fjórir undirrituðu á síðasta ári samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana. Samningurinn hefur þegar tekið gildi og munu nemendur  geta skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga sem gestanemandi tekur með þessum hætti.

Samstarfið og þeir möguleikar sem nemendum við opinberu háskólanna standa til boða verða kynntir í Háskólabíói á Háskóladaginn og auk þess munu skólarnir fjórir kynna námsframboð sitt sérstaklega. Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli-Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands verða í Háskólabíói en Háskóli Íslands verður með námskynningu í Aðalbyggingu, Háskólatorgi og Öskju – náttúrufræðahúsi.

Nóg verður um að vera á háskólasvæðinu á Háskóladaginn, ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.

Ókeypis er á viðburðina og allir eru boðnir velkomnir.

Þess má geta að Listaháskóli Íslands, Keilir og norrænir háskólar kynna sitt námsframboð einnig í Háskólabíói og Háskólinn á Bifröst verður í Norræna húsinu. Háskólinn í Reykjavík verður svo með kynningu á sínum námsleiðum í Nauthólsvík en Listaháskóli Íslands verður einnig þar samhliða því að vera í Háskólabíói.

Merki samstarfsskólanna fjögurra

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is